Foreldrastarf í Breiðholtsskóla

Allir foreldrar og forráðamenn nemenda í Breiðholtsskóla eru sjálfkrafa félagar í foreldrafélagi Breiðholtsskóla. Markmið félagsins er m.a. að stuðla að öflugu samstarfi heimilanna og skólans og styðja við félagslíf nemenda. Sjá nánar um hlutverk bekkjarfulltrúa. Stjórnin fundar að jafnaði mánaðarlega og situr skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri alla fundi með stjórn. 

Foreldrafélag Breiðholtsskóla

Foreldrafélag Breiðholtsskóla Í Breiðholtsskóla er öflugt foreldrafélag. Hlutverk félagsins er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Markmið félagsins er að vinna í hvívetna að heill og hamingju nemenda skólans og hvetja til virkrar þátttöku foreldra í skólastarfinu. Foreldrafélagið heldur ýmsa viðburði  s.s. jólaföndur, páskabingó, fræðslufundi, vorhátíð, og fleira. Einnig sér foreldrafélagið um foreldrarölt. 

Teikning af tveimur ráðgjöfum í hægindastólum.

Stjórn foreldrafélags

Stjórn félagsins kemur ýmsum upplýsingum til  foreldra í gegnum bekkjarfulltrúa sem eru starfandi í öllum bekkjardeildum og til skólaráðs í gegnum fulltrúa foreldra í skólaráði. Stjórn foreldrafélagsins fundar einu sinni í mánuði. Kosið er um stjórn á aðalfundi félagsins sbr. 4 gr. laga Foreldrafélags Breiðholtsskóla.  

Stjórnina skipa:

Ásta Birna Björnsdóttir, formaður:  klettur86@gmail.com   

Valdís Vera Einarsdóttir, gjaldkeri 

Sylvía Una Ómarsdóttir, ritari 

Gunnhildur Karlsdóttir, meðstjórnandi 

 

Bekkjarfulltrúar og bekkjarstarf

Í Breiðholtsskóla telst hver árgangur vera bekkur. Bekkjarfulltrúi er valinn úr hópi foreldra bekkjarins. Sá bekkjarfulltrúi sem setið hefur í eitt ár sér um að kynna Foreldrafélagið fyrir hinum foreldrunum og fá nýjan aðila inn með sér, einnig miðlar hann af reynslu sinni frá fyrra ári. Bekkjarfulltrúar sitja tvö ár í senn að öllu forfallalausu og er valinn einn nýr fulltrúi á ári. Annar bekkjarfulltrúi í hverjum árgangi gefur kost á sér í stjórn Foreldrafélagsins sem tengiliður. Hann situr þar í 2 ár og þarf því að gefa kost á sér á fyrsta ári. 

Teikning af hjónum með ungling á milli sín.

Bekkjarfulltrúar í hverjum árgangi ræða sín á milli hver sinni setu í stjórninni fyrir árganginn. Bekkjarfulltrúar ákveða í samráði við kennara fyrirkomulag á bekkjarkvöldum í 1.-10. bekk og eiga að hafa frumkvæðið. Bekkjarfulltrúar sjá um að útbúa og senda út í bekkina fundarboð, stjórna, halda uppi aga og skipuleggja bekkjarkvöldið.  Bekkjarfulltrúi vinnur ásamt kennara að samvinnu og bættum samskiptum milli nemenda og nemendahópa og við foreldra. Bekkjarfulltrúi er tengiliður annarra foreldra í málefnum er varðar bekkinn, við kennarann og stjórn. Bekkjarfulltrúi skal ávallt virkja aðra foreldra með sér. 

 

Lög Foreldrafélags Breiðholtsskóla

 1.gr. Heiti félagsins  

Félagið heitir Foreldrafélag Breiðholtsskóla. Félagar eru foreldrar og forráðamenn nemenda í skólanum.  

2. gr. Markmið  

Markmið félagsins er að styðja skólastarfið, efla tengsl milli foreldra og skóla og vinna í hvívetna að heill og hamingju nemenda skólans.  Markmiðum sínum hyggst félagið ná með; gagnkvæmu upplýsingastreymi milli heimilis og skóla, því að vinna að góðri aðstöðu nemenda til tómstundastarfs og fræðslu til foreldra og starfsfólks skólans. 

3.gr. Kosning bekkjarfulltrúa og skipan í nefndir  

Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir foreldra og umsjónarkennara ef koma þarf sérstökum málum á framfæri við stjórn foreldrafélags eða skólaráð. Í hverri bekkjardeild eru starfandi tveir bekkjarfulltrúar hverju sinni. Foreldrar hverrar bekkjardeildar velja einn nýjan bekkjarfulltrúa í síðasta lagi fyrir lok apríl ár hvert og einn situr áfram. Bekkjarfulltrúar fyrir væntanlegan 1. bekk eru báðir valdir á fyrsta fundi foreldra í skólanum að vori.  Fráfarandi bekkjafulltrúum ber að miðla upplýsingum og gögnum sem tengjast foreldra- og bekkjarstarfi til nýrra fulltrúa.  Stjórn boðar bekkjarfulltrúa á a.m.k. tvo fundi á vetri, í 1. viku skólaársins og 2. viku janúar. Á þessum fundum er farið yfir verkefni vetrarins og raðað í verkefnahópa. Fulltrúar verkefnahópa bera ábyrgð á framkvæmd verkefnanna og fá til liðs við sig foreldra eftir þörfum.  Fastir stjórnarfundir skulu standa bekkjafulltrúum opnir og eru þeir hvattir til að koma á framfæri hugmyndum foreldra sem miða að því að efla samstarf og jákvæðan anda í foreldrastarfi.  Bekkjarfulltrúar tilnefna einn aðila úr sínum árgangi í stjórn og annan til vara sem kosið er um á aðalfundi sbr. 4. gr. laga þessara. Stjórn er þannig skipuð tíu manns og tíu til vara. Skólastjóri og/eða aðstoðarskólastjóri hafa rétt til setu á fundum stjórnar.  

4. gr. Aðalfundur 

Fráfarandi stjórn skal undirbúa og boða til aðalfundar með viku fyrirvara í maí ár hvert.  

Dagskrá aðalfundar skal vera: 

 • Skýrsla fráfarandi stjórnar.  

• Ársreikningur liðins skólaárs.  

• Kosning í skólaráð.  

• Kosning skoðunarmanns ársreiknings.  

• Kosning stjórnar.  

• Ákvörðun verkefnasjóðsgjalds.  

• Önnur mál.  

5. gr. Reikningsár  

Reikningsár stjórnar skal vera 20. maí til 19. maí. Tekjur félagsins skulu vera verkefnasjóðsgjald, svo og aðrar tekjur sem stjórnin aflar. Stjórnin sér um að ráðstafa fjármunum samkvæmt einföldum meirihluta þess fundar þar sem útgjöld eru samþykkt.  

6. gr. Fundarritun  

Stjórn skal halda gerðabók um það sem fram fer á fundum stjórnar og skulu fundargerðir vera lýsandi fyrir það sem fram fer á fundum og greina frá ákvörðunum sem samþykktar eru. Fundargerðir skulu vera aðgengilegar á heimasíðu skólans.  

7. gr. Breytingar / gildistaka  

Lögum þessum má breyta á aðalfundi ár hvert, enda sé það tilkynnt í fundarboði með minnst tveggja vikna fyrirvara.  Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.  Lög þessi taka gildi 26. maí 2011 og um leið falla lög félagsins frá 8.5.2007 niður.